Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 394  —  13. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um viðskiptaleyndarmál.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands og Steinunni Pálmadóttur frá Samtökum iðnaðarins.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum iðnaðarins. Þá barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný lög um viðskiptaleyndarmál öðlist gildi. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskiptaupplýsinga (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. Auk þess er lögð til ríkari refsivernd viðskiptaleyndarmála en í gildandi lögum og afnám stjórnsýslueftirlits með öflun, notkun og afhjúpun þeirra. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.
    Breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 23. nóvember 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Willum Þór Þórsson.